Thursday, April 20, 2017

Aftökustaðir í Stokkseyrarhreppi

Gimli, fyrrum samkomuhús og síðan bókasafn  á Stokkseyri var á sínum tíma (1921) byggt á sögufrægum stað. Þar var lægð nokkur er nefndist „Þingdalur“. Þar voru haldin þing Stokkseyrarhrepps hins forna undir berum himni fram á 18. Öld. Síðar var byggt þar þinghús og þar var dæmt í málum manna og skorið úr deiluefnum, en þá tilheyrðu bæði þorpin, Eyrarbakki og Stokkseyri sama hreppnum.  Aftökustaðir voru fyrir framan svonefnda „Gálgakletta“ og er annar fram að Eystri-Rauðárhól í Stokkseyrarfjöru. Einhverju sinni hafði stráklingur verið að leika hengingu af óvitaskap sínum og snaran herpst að hálsi hans og var hann dauður er að var komið.

Annar samnefndur klettur er í Hraunsfjöru, skamt vestan Gamla-Hrauns.  Sagt er að þar hafi tveir afbrotamenn verið hengdir fyrr á öldum og síðan  grafnir upp á sjávarbakkanum. Ekki fara aðrar sögur af aftökum í hreppnum. Eini þekkti dauðadómurinn sem kveðinn hefur verið upp í þinghúsi hreppsins var yfir „Barna-Arndísi“ 1771 en Lögþingsrétturinn breytti honum í fjögra ára hegningavinnu í Kaupmannahöfn.

Þingstaðurinn var lagður niður árið 1812 og flutt að sameinuðu þingi Flóamanna í Hróarsholti. Stokkseyrarþing var svo sett  á Eyrarbakka árið 1850, og hélst til 1898 er hreppnum var skipt. Ekki er kunnugt um þann þingstað, en sennilegt er að þær samkomur hafi verið í Húsinu.

No comments: