Saturday, April 22, 2017

Svanur frá Stokkseyri kallar á hjálp

„Sunnudaginn 8. april 1923 var mb. Svanur frá Stokkseyri i fiskiróðri og flaggaði nauðaflaggi; sást það úr landi, var þá nálægt hádegi, og allir aðrir komnir i land er á sjó fóru um morguninn. Eftir nokkurn tíma varð Þórarinn Guðmundsson formaður á mb. Frið tilbúinn Svani til hjálpar, en hann krafðist þess að annar bátur kæmi með sér til hjálpar; fór Guðmundur Karl Guðmundsson á Stokkseyri þá með honum á mb. Baldur. Náðum þeir fljótt í Svan; hafði vél hans stansað og drógu þeir hann inn að Stokkseyrarsundi, en lengra var eigi mögulegt að koma tveim bátum við til að draga Svan.
Vindur var snarpur á suðaustan og allmikið brim. Slepti nú Svanur dráttartaug Baldurs, en Friður bjóst til að draga Svan inn sundið, en Guðmundur beið fyrir utan brimgarðinn á meðan.

Þá Friður er kominn með Svan nálægt hálfa leið inn sundið slitnar dráttartaugin milli bátanna. Friður gat ómögulega snúið við vegna þrengsla, rak þvi Svanur hjálparlaus fyrir straum og vindi þvert af leið, vestur í brimgarðinn; gáfu þá skipverjar af Svan neyðarmerki; brá Guðmundur þá strax við og fór með fyllsta hraða af stað, en þar sem hann var staddur nokkuð út á, þegar Svanur slitnaði aftan úr Frið, hafði Svan rekið all-langt af leið, og var kominn svo langt vestur í brimgarðinn, að Guðmundur taldi hina mestu hættu að hálgast hann; þó réði hann af að reyna það, vék af leiðinni, og þrátt fyrir að brotsjóir féllu bæði dýpra og grynnra, tókst honum að komast svo nærri Svan, að auðið varð að kasta til hans dráttartaug, og síðan að draga hann inn á rétta leið til lands. Það mátti sannarlega heldur ekki seinna vera að i Svan næðist.

No comments: